Færsluflokkur: Bloggar
19.3.2007 | 16:59
Vinstri Grænir eða ....
Sú staðreynd hræðir mig að Vinstri Grænir gætu farið í Ríkistjórn eftir næstu kosningar. Ekki nóg með það heldur eru góðar líkur á því að þeir gætu leitt næstu Ríkistjórn. Mikið rosalega held ég að það gætu verið erfið fjögur ár.
Ég hef nú samt alltaf verið frekar jákvæður í garð Vinstri Grænna einfaldlega vegna þess að maður veit nú yfirleitt hvar maður hefur þá. Maður getur oftast nær gefið sér hvað þeir hafa til málana að leggja.
En aldrei hafði ég ímyndunarafl í þetta. Að einn daginn væri fjórði hver íslendingur tilbúinn til að styðja þá í kosningum! Magnað!
Núna í gær tókst Ögmundi Jónassyni að koma í veg fyrir að frumvarp um að leifa sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum yrði að lögum. Hann sagði einfaldlega að ef frumvarpið kæmist á dagskrá myndu Vinstri Grænir beita málþófi sem óhjákvæmilega myndu seinka þinglokum. Og það vildu þingmenn ekki, þeim liggur svo á að hefja kosningabaráttuna fyrir alvöru. Þetta tókst honum þrátt fyrir það að það væru yfir 10 þingmenn úr öllum öðrum flokkum en Vinstri Grænum sem ættu aðild að þessu frumvarpi. (Virkilega lýðræðislegt)!
Reyndar hef ég oft spurt sjálfan mig af hverju í ósköpunum sjálfstæðisflokkurinn (sem kallar sig Frjálshyggjuflokk) er ekki löngu búinn að koma þessum lögum í gegn um þingið? Þetta er dæmi um eitt af fjölmörgum smávægilegum breytingum sem þó myndu auka lífsgæðin í þessu landi og þó ekki væri nema í eitt augnablik myndi maður kannski trúa því að þetta tal sjálfstæðismanna um frelsi einstaklinga og fyrirtækja væri ekki bara orðin tóm!
Þegar ég hugsa betur um það þá skiptir kannski engu máli þó Vinstri Grænir komist í ríkistjórn......
Siggi
Bloggar | Breytt 20.3.2007 kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.3.2007 | 13:25
Áskorun!
Fyrir nokkrum mánuðum tók ég þá ákvörðun um að poppa sjálfan mig aðeins upp. Bæta ráð mitt ef svo má segja. Ákvað t.d. að hætta allri neyslu nikotíns, sama í hvaða formi það er, fara að hreifa mig reglulega og reyna að bæta mataræðið. Þá var hugmyndin sú takmarka neyslu áfengis við ákveðin félagsleg tækifæri en það skal ekki vera forsend þess að maður geti haft samskipti við fólk. Hætta svo að tala illa um náungan og leitast við að vera bjartsýnn og jákvæður í hvívetna.
Þetta átak fór af stað fyrir tæpum þrem mánuðum og hefur gengið þokkalega. Að vísu hefur á köflum verið erfitt að halda utan um þetta allt og maður á það til að gleyma sér. Þá hafa búferlaflutningar og ákveðið rótleysi síðan ég flutti aftur heim sett strik í reikninginn. Kannski hefur manni skort ákveðið aðhald, enda hef ég ekki verið að básúna þessum nýja lífsstíl sérstaklega.
En núna er tímabært að láta verkinn tala!
Það sem ef til vill er hvað mest áríðandi er að koma sér í form. Við Viktor ræddum það í hálfkæringi fyrir skemmstu hvort ekki væri sniðugt að reyna að skokka hálft maraþon síðsumars og þannig hefði maður eitthvað að stefna að. Ég hef núna tekið ákvörðun um að svo skal verða.
Markmiðið er eftirfarandi:
Þann 18.08.2007 ætla ég Sigurður Valur Sigurðsson að taka þátt í Reykjavíkur maraþoni og hlaupa þar hálft maraþon (21 km). Ég stefni að því að klára hlaupið á innan við 1 klukkustund og 45 mínútum, allt undir tveim klukkustundum verður þó talin ásættanlegur árangur en allt umfram verður túlkað sem mikill ósigur. Til að ná þessum markmiðum ætla ég að fara út að skokka 3-5 sinnum í viku hverri fram að hlaupinu og verða engar undantekningar á þeirri reglu nema hugsanlegar líkamlegar hömlur svo sem fótbrot eða dauði!
Að hlaupinu loknu mun svo verða haldið mikið partí að frumkvæði undirritaðs þar sem nautnir holdsins verða í fyrirrúmi og allt það sem ég stefni að því að breyta og bæta verður gert afturvirkt. Það verður étið þangað til kolesterolið vellur út um eyru gestana, vökvatapið verður bætt upp með ótæpilegri neyslu áfengis og allt og allir sem ekki mæta í partíið (eða verður ekki boðið) verða dissaðir.
Nú spyr ég brekkumenn og aðra lesendur hvort einhver sé tilbúinn að taka þennan slag með mér? þorir einhver? Þetta er áskorun!!
Siggi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.3.2007 | 16:58
Þetta verður allt í lagi....
Ég er kominn heim. Fluttur heim. Ég er ekki í heimsókn, ég er kominn til að vera. Síðastliðin ár hafa reynt mikið á Brekkuna. Verið hópnum afskaplega erfið og oftar en einusinni og oftar en tvisvar hafa ákveðin sundrung og sárindi gert vart við sig. Þó svo að þessi sárindi hafi ekki alltaf beinst gegn mér þá tek ég engu að síður full ábyrgð á því sem hefur gengi á. Í raun hefur þetta verið afskaplega lýsandi hegðun fyrir fólk sem verður fyrir áfalli; fyrst afneitun, svo reiði og loks sorg og söknuður. Á öllum þessum stigum er viðbúið að menn snúist gegn þeim er standa nærst. Þannig hefur það stundum verið á brekkunni.
Strákarnir á Brekkunni náður aldrei að aðlagast að fullu þessu brotthvarfi mínu. Alltaf þegar ég kom heim í heimsókn horfðu þeir á mig eins og lítill drengur á föður sinn sem svo oft hefur valdið honum vonbrigðum og spyrja, ertu kominn fyrir fullt og allt?. Jafnan hef ég þurft að þrengja örlítið meir að löngu brostnu hjarta þeirra og svar nei, ég er bara í stuttri heimsókn. Það er því ómetanlegt að geta glatt þá með því að hvísla ljúft í eyra þerra, þetta verður allt í lagi, Siggi er kominn heim.
Þeir eru þó varir um sig eins og flestar særðar sálir. Vilja ekki gefa of mikið færi á sér. Það verður því ærið verk að vinna traust þerra að fullu en þó áskorun sem ég tek glaður með von og kærleika að vopni.
Siggi
Bloggar | Breytt 7.3.2007 kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.2.2007 | 11:01
Koma svo frændi......
Bjössi frændi frá Mælifellsá heldur áfram að standa sig. Nú held ég að það sé bara tímaspursmál hvenær hann bætir þetta blessaða íslandsmet. Held að það séu meiri líkur á því en að úrvalsvísitala kauphallarinnar nái 8000 stigum á árinu! Þegar hann verður búinn að ná því þá á hann eftir að bæta það enn meira, þetta er bara sálfræði ekkert annað.
Annars eru þeir bræður frá Mælifellsá alveg ótrúlegir. Held að þeir hljóti að eiga íslandsmet í íslandsmetum bræðra eða eitthvað. Þar að auki hefur sá elsti Hrafn spilað með landsliðum Íslands í handbolta. Þeir eru magnaðir piltar og drengir góðir það mega þeir líka eiga. Maður er stoltur að geta rakið ættir sínar til slíkra manna já og kvenna. (Eins gott að passa sig femínistar gætu reynt að koma í veg fyrir að ég fái að gista á Sögu)
Tryllti
Björn alveg við EM lágmarkið í Stokkhólmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2007 | 09:30
Tarfur á svæði 2!
Fékk þau ánægjulegu skilaboð í morgunsárið að ég hefði fengið úhlutað hreindýri í ár! Ekki voru allir jafn heppnir þar sem bróðir minn hafði sent mér póst með meldingu að það væru 213 á undan honum í röðinni ef einhver hyggðist ekki nýta leyfið sitt!
Það er þá ljóst að ég er að leiðinni austur á land á tímabilinu 1. ágúst til 15. september til að sækja mér eitt stykki tarf.
Tryllti Tarfur!
E.s. rétt að taka fram að veiðisvið Umhverfisstofnunar er án efa ein flottasta og skilvirkasta stofnun landsins og þetta segi ég ekki af því að ég fékk úthlutun! Ástæðan er sú að meira og minna öll samskipti mín við þá eru rafræn. Ég sendi veiðiskýrslur rafrænt, ég sæki um hreindýr, veiðikort og annað rafrænt. Þeir voru með vefvarp af útdrættinum, útdrátturinn var sýndur á fjarfundi á 3 stöðum á landinu og svo framvegis. Þeir voru búnir að senda mér staðfestingu á dýrinu mínu nokkrum klst eftir að ég var dregin út! Já og bróðir minn fékk líka sína "staðfestingu" nokkrum klst síðar!
Dregið um hreindýraveiðileyfi í gærkvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.2.2007 | 16:22
MAYRHOFEN
Mayrhofen er lítill bær sem lyggur innarlega í Zillertal í Tyrol (Austuríki), U.þ.b 60 km suður af Innsbruch höfuðborg Tyrol. Bærinn sem telur rétt rúmlega 4.000 íbúa telst í flesta staði mjög hefðbundinn Austrrískur alpa-bær. Ef maður leita að upplýsingum um bæinn á netinu, er mönnum tíðrætt um það að óvíða sé hægt að fanga þessa Tyrolsku-alpastemmningu betur en einmitt í Mayrhofen. Hann er líka frabrugðinn öðrum bæjum í Zillertal að því leitinu til að þarna hefur verið blómlegt samfélag í frá miðöldum en bærin hefur ekki bara byggst upp í kringum árstíðabundinn túrisma. Það er þó engum blöðum um það að fletta að ferðaþjónusta er ríkjandi atvinnugrein í Mayrhofen, eins og reyndar í flestum borgum og bæjum í Tyrol, (og í Austurríki ef út í það er farið). Mayrhofen er að mörguleiti mjög gott dæmi um miðevróskt bændasamfélag þar sem landbúnaður er orðin lítil hliðar- eða stuðningsafurð af örtstækkandi ferðamannaiðnaði.
Eins og gefur að skilja eru það fyrst of fremst fjöllinn í kring sem draga ferðamenn til Mayrhofen enda er það einstaklega tilkomu mikið að sjá hvernig fjöllin rísa úr rúmlega 600 m. yfir sjáfarmáli þar sem bærinn stendur í rúmlega 3.200 m.
Það var strax í byrjun 19 aldar að ferðamenn fóru að sjást í Zillertal, þrátt fyrir það að ferðamennska hafi verið nánast óþekkt fyrirbæri (nema í hernaðarlegum tilgangi) á þessum tíma. Einkum voru það breskir ungir aðalsmenn sem fóru sín á milli að tala um dásemdir alpaloftsins og stórfenglega fegurð fjallana. Tyrol fékk þá strax þessa rómantísku ímynd sem svæðið býr enn að í dag. Enda er ekki að ástæðulausu að Tyrol sé jafnan kallað hjarta Alpana af fjallaáhugafólki.
Það var svo á sjötta áratug þessarar aldar að ferðamenn fóru í auknu mæli að sækja í alpana ekki eingöngu vegna fegurðar fjallana heldur til skíðaiðkunar. Mayrhofen varð snemma leiðandi í þessari uppbyggingu og hefur alltaf staðið framarlega hvað varðar gæði og fjölbreytni. Í dag telja skíðabrekkurnar 157 km. Af troðnum skíða brautum, 49 liftur og 28 veitingastaði og knæpur.
Hin síðari ár hefur þó mátt sjá stefnubreytingu í uppbyggingu tourisma í Mayrhofen, enda er snjórinn orðinn brygðul auðlind. Í Mayrhofen hafa menn því reynt að leggja aukna áherslu á að markaðsetja sumarið og þá möguleika sem alparnir bjóða uppá á sumrin til útivistar og afslöppunar. Þá hefur verið löggð aukinn áhersla á að kynna matarhefðir sem eru ríkjandi í Zillertal, enda er dalurinn fyrir laungu rómaður fyrir geitaost, knödel og svo náttúrlega Schnaps. Nýlega var svo farið að leggja mikið fé í að byggja upp fundar og ráðstefnuaðstöðu í bænum og virðast bæjarbúar ætla líkt og Íslendingar að veðja á mikla sprengingu í funda- og ráðstefnuhaldi á næstu árum.
Myrhofen er þó Íslendigum ekki ókunn, margir Íslendingar sóttu bæinn heim á níunda og tíunda áratugnum. En þá bauð ferðaskrifstofa Flugleiða uppá skíðaferðir til Myrhofen sem nutu óhemju vinsælda. Sjálfur fór ég í eina slíka ferð veturinn 1988, þá 9 ára gamall. Allargötur síðan hefur Mayrhofen verið mér hulið einhversskonar dýrðar ljóma, enda hafði ég aldrey séð neitt eins stórkostlegt. Þarna sannfærðist ég líka um gildi þess að fara í skíðafrí, varð heltekin af stemmningunni og að ég tali nú ekki um af Tyrolskri menningu. Upplifuninn í Mayrhofen skaut svo traustum rótum í sál barnsins að reglulega reikar hugurinn til fjallana og svo tær er minninginn að mér finnst sem ég hafi verið þar í gær.
Það hefur því alltaf verið á stefnuskránni að snúa aftur til Mayrhofen. Reyndar hef ég undanfarna þrjá vetur verið duglegur við að heimsækja Tyrol og í þónokkur skipti hef ég dvalið einn til tvo daga í Zillertal en aldrey hef ég náð að fara innst í dalinn, alla leið. En nú er þó komið að því. Á laugardaginn stíg ég upp í lest hér í München og fer aftur til Mayrhofen.
Ég segi ykkur meira þegar ég sný til baka!
Siggi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.2.2007 | 12:20
Blað brotið í sögu brekkunnar - bloggvinur
brekkan.net hefur nú eignast sinn fysta bloggvin. Síðustjóri fékk meldingu frá moggablogginu að það hefði verið sóst eftir vinskap við okkur! Þrátt fyrir að verktakinn hafi ítrekað sagt mönnum sem hafa sóst eftir vinfengi við hann, að hann hafi bara ekki tíma fyrir fleiri vini, þá ákv. ég að samþykkja þennan nýja vin okkar.
Þetta bloggvinadæmi er allstaðar og sannast sagna þótti mér hálffúlt að brekkan ætti enga vini!
Bjóðum því seth velkominn í bloggvinahópinn.
Tryllti
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.2.2007 | 11:07
Til hamingju
Vil nú byrja á að óska foreldrum stúlkunnar til hamingju með hana. En svo langar mig að benda á að það hefur sennilega tekið hátt í 30 ár að fjölga íbúum um 1000 kvekindi! Frá því að ég man eftir mér hafa íbúar á Skaganum verið í kringum 5 þús.
Vonandi tekur það ekki önnur 30 ár að ná 7 þús manns hingað. Hvað er það sem kemur í veg fyrir að fólk flyst aftur á Skagann. Það er hvergi betra að búa!
Skagamenn orðnir 6.000 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.2.2007 | 23:40
Template fyrir Sigga
Siggi okkar er greinlega alvarlega að íhuga úrsögn úr Sjálfstæðisflokknum. Hann taldi það góða hugmynd að birta hér það sem ég sendi í gegnum síðuna www.xdakranes.is á dögunum. Hef hann grunaðan um að vilja vita hvernig hann eigi að fara að þessu. Læt þetta því flakka hér og býð Sigga (já og öðrum sem vilja) að nota þetta sem skapalón að sinni eigin úrsögn. Hvort heldur það er úr Sjálfstæðisflokknum eða öðrum flokkum, gæti reydnar þurft að breyta einhverju ef aðrir flokkar eru valdir!
"Komið þið sæl
Mér þætti vænt um að þið sæjuð ykkur fært um að taka mig af félagalista ykkar. Skrá mig úr flokknum.
Þar sem fasteignagjöld og leikskólagjöld hafa hækkað óeðlilega frá því að þið tókuð við völdum í bæjarfélaginu okkar þá hef ég einfaldlega ekki efni á að vera í félaginu. Endilega afskráið einnig kröfuna sem þið hafið sent á mig vegna félagsgjalda, 3000 krónur.
Flokkurinn er nýbúinn að koma í gegn frumvarpi um fjármál stjórnmálaflokka og í því er gert ráð fyrir umtalsverðum upphæðum sem mun renna til flokksins. Þið verðið að sækja í þann sjóð ef þið eruð fjárþurfi. Ég er búinn að greiða í hann með sköttum mínum.
Vinsamlegast staðfestið móttöku þessara skilaboða með því að senda póst á netfangið viktor@isl.is.
Ef engin staðfesting berst geri ég ráð fyrir að koma þessu til ykkar með öðrum leiðum.
kveðja Viktor Elvar Viktorsson"
Fékk svo svar á sunnudaginn:
"Sæll,
Staðfesti móttöku og afgreiðlsu líkt og óskað er eftir.
Kv.
f.h. Sjálfstæðisflokkinn Akranesi
......."
Sé ekki ástæðu til að nafngreina neinn frá Sjálfstæðisflokknum án efa vænasti náungi sem ég kann bestur þakkir fyrir svarið, enn hangir þó greiðsluseðillinn inní netbankanum mínum eins og vofa fortíðar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.1.2007 | 22:13
Úrsögn og dauði flokkakerfisins
Þetta klúður Frjálslyndaflokksins er enn eitt dæmi þess að flokkakerfi eins og er við lýð í íslenskum stjórnmálum er úr sér gengið og ætti að uppræta. Þessir stjórnmálaflokkar allir sem einn eru orðnir sérhagsmunasamtök fárra útvalinna og ekki nokkur leið fyrir fólk með meðtnað og hugsjónir að komast að. Tja nema eiga einhverja aura, heita Árni Jonsen og/eða vera frá Vestmannaeyjum því þar kjósa menn í prófkjörum þvert á flokka og hika ekki við að vera í 2-3 stjórnmálaflokkum á sama tíma til að geta komið sínu fólki að!!
Sjálfur komst ég að því á dögunum að ég væri félagi í Sjálfstæðisflokknum. Hafði reyndar lengi grunað þetta og verið að velta því fyrir mér hvenær það hefði getað gerst. Eftir nokkra umhugsun og pælingar þá komst ég að því að sennilega hafi það gerst fyrir kosningarnar 1995. Þá aðstoðaði ég félaga mína sem þá voru í félagi ungra sjálfstæðismanna á Akranesi við að standsetja kosningamiðstöð ungafólksins á Skaganum. Hvenær ég hripaði (og hvort) nafnið mitt á blað og skráði mig í flokkinn er mér hulin ráðgáta, líklegast þá verið á 4-5 bjór sem ég reyndar hafði ekki þroska til að kunna að meta á þeim árum!
Ástæðan fyrir því að ég komst að þessum ósöpum, þ.e. að ég væri flokksbundinn er sú að mér barst bréf frá fulltrúaráði flokksins þar sem dagskrá vetrarins er tíunduð og fólki tjáð að nú sé svo mikið framundan að ekki verið hjá því komist að innheimta félagsgjöld!
Félagsgjöld! Nískupúkinn ég mun nú ekki borga félagsgjöld til flokks sem nýverið hefur úthlutað sér veglegan hluta skatta minna með alveg hreint fáránlegu frumvarpi um fjármál stjórnmálaflokkanna! Ég sagði mig því úr flokknum á heimasíðu flokksins www.xdakranes.is bað sérstaklega um að móttaka umsóknarinnar yrði staðfest sem reyndar hefur ekki enn gerst.
Auk þess legg ég til að íslenskir stjórnmálaflokkar verði lagðir niður!
Tryllti
Niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni engum vafa undirorpin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 1.2.2007 kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Síður
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar